Ársskýrsla foreldrafélags Laufskála 2010-2011

Foreldrafélag Laufskála haustið 2010 – hausts 2011

Foreldrafundur haldinn fimmtudaginn 12.janúar 2012.

Núverandi stjórn tók við haustið 2010 á aðalfundi félagsins er haldin var í október. Samkvæmt lögum félagsins ætti að halda aðalfund félagsins á haustmánuðum en því miður hefur þessi fundur seinkað þangað til núna í janúar 2012 – stjórn biðst forláts á þessari seinkun.

Starfsárið hefur verið annasamt að mörgu leyti en strax í október 2010 var komið að Foreldrafélaginu í Laufskála að vera í fararbroddi sem leikskóli ársins. Um er að ræða samstarfsverkefni foreldrafélaga í leikskólum í Reykjavík. Haldnir voru nokkrir fundir á þessu starfsári sem svo leiddi til þess að fræðslufundur var haldinn í Grafarvogskirkju um „það sem ekki má“. Var hann nokkuð vel sóttur og mjög skemmtilegur og fróðlegur fyrirlestur.

Í desember 2010 var piparkökumálun sem foreldrafélagið stóð að. Góð þátttaka var og seldust piparkökurnar, sem keyptar voru, upp. Foreldrafélagið styrkti síðan Jólaleiksýninguna og einnig komum við að jólaskemmtuninni í skólanum.  Foreldrafélagið gaf síðan Gítar í jólagjöf til leikskólans sem Harpa, deildarstjóri, sá um að velja.

Um vorið var haldin Afmælishátíð leikskólans og fékk foreldrafélagið hoppukastala á svæðið, einn fyrir eldri krakkana og einn fyrir yngri krakkana. Sá minni var eitthvað illa fyrirkallaður þannig að ekki var mikið hægt að nota hann. Foreldrafélagið sá einnig um veitingarnar á þessari hátíð.

Þá um vorið hafði formaður mikil samskipti við stjórnsýslu Reykjavíkurborgar vegna lóðarmála leikskólans. Þau samskipti urðu til þess að fulltrúi foreldrafélagsins, Hildur Kristín, og fulltrúi foreldraráðsins, Rósamunda, fóru á fund borgarinnar. Í stuttu máli snerist málið um hversu illa farin lóðin er, sérstaklega ákveðnir staðir á henni sem eru í raun hættulegir krökkunum við ákveðnar aðstæður. Reykjavíkurborg sá sér ekki fært að verða við beiðni foreldrafélagsins að þessu sinni en réðst engu að síður í einhverjar smá lagfæringar á lóðinni þegar leikskólinn var lokaður í júlí. Það er von foreldrafélagsins að óskir um lagfæringar á lóðinni verðið haldið áfram og þrýst á að lóðin verði endurskipulögð með þær þarfir sem hún þarf að sinna dags daglega við leik og störf.

Fleiri mótmæli urðu á árinu því að um tíma leit út fyrir að leikskólinn yrði sameinaður öðrum leikskóla og jafnvel grunnskóla. Þessu mótmælti stjórn félagsins og mætti í mótmælastöðu fyrir utan ráðhús Reykjavíkur ásamt því að mæta á fjölmennan fund í Grafarvogi um þessi mál.

Haustið var fremur rólegt hjá foreldrafélaginu en Halldóra, leikskólastjóri, hætti störfum við skólann og þann dag er hún hætti störfum mættu fulltrúar félagsins í skólann til að þakka henni fyrir frábær störf í þágu barnanna okkar og færðu henni smá gjöf.

Jólagjöfin í ár frá foreldrafélaginu til leikskólans voru leikbúningar sem Hildur, leikskólastjóri og Gunna, aðstoðarleikskólastjóri, sáu um að velja. Eru þessir búningar upphafið af verkefni við skólann er heitir Leikskólaleikhús.

Stjórn þakkar leikskólastjóra og öllum starfsmönnum skólans fyrir frábær störf í þágu barna okkar.