Leiklist

Leiklist í Laufskálum

Leikskólinn Laufskálar hefur verið í stöðugri þróun síðan hann opnaði árið 1996 Kennarar leikskólans leggja sig fram við að bjóða börnum uppá fyrsta flokks uppeldi og kennslu. Eitt verkefni leikskólans er kallað Leiklistarleikskóli.  Leiklistarleikskóli er unnin með öllum börnum í leikskólanum og allir fá tækifæri til að velja sér verkefni eftir áhuga.

Leiklistarleikskóli leggur áherslu á að börnin fái tækifæri til að koma fram og njóta sín í hlutverkum og í eigin persónu. Jafnframt er öllum ljóst að hlutverk ljósameistara, hljómsveitar, búninga og leikmyndahönnuða, sviðsmanna og leikstjóra eru allt mikilvægir hlekkir til að sýning geti átt sér stað. Það er ekki alltaf tilgangurinn að setja upp sýningu en mikið er það nú gaman.

Hugmyndir barnanna eru oftast kveikjan af því sem gera á en kennarar geta líka stungið uppá verkefnum.

Leiklistarleikskóli styðst við Aðalnámskrá leikskóla. Grunnþættir menntunar samkvæmt aðalnámskrá eru t.d sköpun, menning, jafnrétti og lýðræði: Allt eru þetta þættir sem flettast vel inní markmið og leiðir leiklistarleikskóla.

Sköpun er mikilvægur þáttur í þroska og námi barna. Öll búum við yfir hæfni til þess að skapa og túlka en aðstæður og umhverfi þroska þessa hæfileika á ólíkan hátt. Börn hafa þörf fyrir að tjá sig í gegnum hlutverkaleik og breyta umhverfi sínu í þágu leiksins sem þau eru í hverju sinni. Í leik taka börn að sér hlutverk í tilbúnum heimi, kanna mannleg samskipti, finna lausnir á vandamálum og læra af reynslu. Það er því mikilvægt fyrir kennara að skapa aðstæður þar sem börn fá tækifæri til að túlka og tjá sínar eigin tilfinningar og annarra.

Leiklist stuðlar að sterkari sjálfsmynd og aukinni hæfni til þess að leika sér, lifa sig inn í ímyndaðar aðstæður og setja sig í spor annarra. Leiklist styrkir málþroska og eykur félagsfærni, örvar frumkvæði, sköpunarhæfni, ímyndunarafl og verklagni.