Hagnýtar upplýsingar

Aðlögun

Fyrirkomulag

Fyrsta daginn mætið þið klukkan 9:00. Í fataklefanum verður hólf merkt barninu þar sem útifatnaður og önnur aukaföt eru geymd. Frá klukkan 9:00 til klukkan 11:00 verðið þið í frjálsum leik innan deildarinnar þar sem áhersla er lögð á að þið kynnist starfsfólki, börnum og öðrum foreldrum. Allir fá afhent nafnspjöld í upphafi til þess að auðvelda samskipti. Um klukkan 11 skipta foreldrar á börnum sínum og í framhaldi af því verður söngstund með starfsfólki í innra herbergi deildarinnar. Foreldrar fá söngtextablöð svo að allir geti sungið með. Kl 11:30 verður boðið upp á hádegismat en foreldrar sjá um að gefa sínu barni að borða. Eftir hádegismat verður lögð niður hvíld þar sem börnunum stendur til boða að hvíla sig. Vilji börnin ekki sofna fara þau heim en við hvetjum þó alla til þess að prófa að leggjast niður og kynna sér aðstæður í hvíldinni. Ef barnið sofnar er ykkur boðið upp á kaffi á meðan það sefur. Ykkur stendur einnig til boða að fara heim á meðan en starfsfólk mun þá hringja í ykkur þegar barnið er vaknað.

Næstu tveir dagar eru með svipuðu sniði en þá mætið þið klukkan 08:30 í leikskólann og borðið saman morgunmat. Á milli 09:30 og 10:30 verður útivera en foreldrar klæða börnin sín og eru með þeim í leik úti í garði. Eftir útiveru verður farið inn, skipt á börnunum og síðan farið í samverustund í innra herbergi. Hádegismatur er sem fyrr klukkan 11:30. Eftir hádegismat sjá starfsmenn um hvíld á meðan foreldrar draga sig í hlé. Á meðan börnin sofa koma foreldrar saman á eldri deild leikskólans og vinna að ættartré fyrir barnið sitt. Þið eruð því beðin um að koma með myndir af fjölskyldumeðlimum, vinum og/eða gæludýrum annan dag aðlögunar til þess að líma á ættartréð. Þau geta reynst mikil huggun þegar kemur að því að kveðja mömmu eða pabba. Vinnan við ættartréið er frjáls, kjósi foreldrar að vinna það heima er það velkomið.

Á meðan börnin sofa eru þið hvött til þess að draga ykkur í hlé frá deildinni og skreppa frá í stuttan tíma. Þetta gefur kennurum tækifæri til þess að vinna inn traust hjá börnunum þegar þau vakna. Ef allt gengur vel er hringt í foreldra u.þ.b. 30 mín eftir að barnið vaknar, annars fyrr.

Eftir að börnin vakna er rólegur leikur inni á deildum og foreldrar skipta á börnunum sínum. Klukkan 14:30 verður nónhressing en eftir það fara börnin heim.

Á fjórða degi mætið þið í leikskólann klukkan 08:30 og borðið saman morgunmat. Klukkan 09:00 verður sameiginleg söngstund í alrými leikskólans þar sem börn af öllum deildum koma saman og syngja. Þegar söngstundinni er lokið koma foreldrar með börnum sínum inn á deild og kveðja svo. Gott er að hafa í huga að barnið dvelji ekki allan daginn í leikskólanum fyrstu dagana heldur sé sótt á milli 15 og 16.

Þáttökuaðlögun

Þegar lítið barn byrjar í leikskóla eru það gríðarleg tímamót, bæði í lífi þess sjálfs og foreldranna. Fyrir margar fjölskyldur eru þetta tímamót sem krefjast breytinga á högum þeirra og valda streitu. Til þess að auðvelda bæði börnum og foreldrum umskiptin hefur í gegnum tíðina tíðkast að setja upp sérstakt skipulag í leikskólanum sem gengur undir nafninu aðlögun. Núverandi aðlögunarform byggir á svokölluðum tengslakenningum sem eru unnar út frá kenningum John Bolwby annars vegar og Mary Ainsworth hinsvegar. Í ljósi þessara kenninga er talið að það geti haft slæmar afleiðingar fyrir tilfinningaþroska barnsins og möguleika til náms ef þessi aðskilnaður er of snarpur. Þetta form aðlögunar beinist fyrst og fremst að börnunum en henni er ætlað að létta þeim aðskilnaðinn og byggir á þeirri trú að ef barnið og foreldrarnir fá góðan tíma til að venjast lífinu í leikskólanum valdi aðskilnaðurinn litlu sem engu áfalli. Börnin kynnast þannig starfsfólkinu smá saman og traust skapast á milli þeirra. Síðustu ár hefur einnig verið lögð aukin áhersla á að foreldrar fái tækifæri til að kynnast starfsfólki og treysta því.

Skipulag hefðbundinnar aðlögunar er gjarnan sett upp á þann hátt að barnið kemur í leikskólann með foreldrum og stoppar stutt við fyrsta daginn. Næstu daga eru foreldrar með barninu en bregða sér frá, fyrst stutt en síðan er tíminn lengdur smátt og smátt. Aðlögunarferlið tekur gjarnan frá viku til tíu daga. Það getur því tekið töluverðan tíma að aðlaga börn á heila deild í leikskólanum og skipulagt starf hefst þ.a.l. seint.

Þátttökuaðlögun byggir meðal annars á þeirri trú að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Foreldrar eru fullir þátttakendur frá fyrsta degi og öðlast þ.a.l. öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Foreldrarnir eru með börnum sínum fyrstu þrjá dagana í leikskólanum og eru með þeim inni á deild allan tímann, nema þegar þau sofa. Foreldrar sinna sínum eigin börnum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar. Starfsfólk tekur einnig þátt en það skipuleggur daginn, deilir verkefnum og skráir það sem fyrir augu ber. Á fjórða degi koma börnin um morguninn, kveðja foreldra sína og eru fullan dag í leikskólanum. Í einhverjum tilfellum þarf barn að hafa foreldri hjá sér fjórða daginn en reynslan sýnir að þau eru mjög fá. Með þessu fá foreldrar tækifæri til þess að kynnast hvert öðru, kynnast starfsfólki og sjá það í verki og öðlast skilning á þeim raunveruleika sem börnin upplifa innan leikskólans á degi hverjum.

Í rannsókn á þátttökuaðlögun sem Kristín Dýrfjörð framkvæmdi kemur fram að almennt töldu deildarstjórar að meiri nánd næðist við foreldra í þátttökuaðlögun og þeir væru ekki lengur í hlutverki gesta heldur væru orðnir heimavanir á leikskólanum. Einnig upplifðu deildarstjórar að samskipti við foreldra væri ekki eins þvinguð og einnig töldu þeir sig þekkja foreldrana betur. Deildarstjórum fannst börnin öruggari í þessari aðlögun því þau eru ekki stöðugt að leita að foreldrunum. Aðlögunin virkar meira sem heild og börnin venjast því frá upphafi að vera lengi á leikskólanum. Öllum deildarstjórum sem tóku þátt í rannsókninni fannst að börnin virkuðu örugg á fjórða degi. Almennt var lítið um bakslag hjá börnunum en þó var eitt og eitt barn sem þurfti lengri tíma.

Hér má nálgast bæklinginn "Velkomin til samstarfs um leikskólabarnið!"

Afmæli

Þegar börnin eiga afmæli mega þau koma með ávexti og grænmeti með sér til að bjóða hinum. Börnin útbúa kórónur með hjálp kennara og haldin er afmælissamvera þar sem afmælisbarnið er í brennidepli.

Fjarvera - veikindi / frí

Tilkynna skal til leikskólans um veikindi og frí.

Viðmiðunarreglan er sú að börn geta verið  inni í tvo daga eftir  veikindi. Innivera fyrirbyggir ekki veikindi barna.  Ávallt er hægt að hafa samráð við deildarstjóra ef um astma eða annað þvíumlíkt er að ræða.

Klæðnaður

Farið er daglega í útiveru þegar veður leyfir. Börn hafa gott af því að komast út og í ferska loftið. Þau læra á umhverfið og að vera úti í íslensku veðurfari.

Börnin þurfa að vera í fötum sem mega verða skítug og blaut, þar sem gert er ýmislegt í leikskólanum eins og að drullumalla, mála og fleira sem börnin hafa gaman af.

Í fatakassa barnanna þarf að vera:

  • Aukaföt, buxur, bolir, sokkar/sokkabuxur, nærföt/samfellur og peysur.
  • Gott er að hafa tvennt af öllu.Nauðsynlegt er að merkja öll föt vel.

Börnin þurfa að hafa útiföt sem henta veðri.

  • Pollagalla, flísföt/hlýja peysu, kuldagalla, ullarsokka, vettlinga og húfu.

Eindregið er mælt með að börnin séu með lambhúshettur yfir vetrartímann.

Opnunartími leikskólans

Leikskólinn er opinn alla virka daga frá kl 7.30 - 17.00 og eru foreldrar beðnir um að virða vistunartíma barnsins.