Leikskólastarf

Leiðarljós Laufskála

Heiðarleiki í samskiptum
Segjum hug okkar, bíðum ekki með það sem við þurfum að segja í dag til morguns

Jákvæðni
Að taka hverjum degi eins og hann birtist. Hugsa í lausnum.

Gleði
Að hafa gaman af starfi sínu.

Samstaða
Sameiginleg ábyrgð á því að starfsemi leikskólans gangi vel og farið sé eftir gildandi reglum.

Virðing
Berum virðingu fyrir okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst.

Opin hugur
Mætum margbreytileika einstaklinga.

Nærgætni
Við mætum þeim er við umgöngumst af nærgætni og tölum ekki niður til þeirra.

Öryggi
Samhæfðar reglur og stuðlað að vellíðan í umhverfinu.

Virk hlustun
Hlustað á aðra af athygli.

Framþróun einstaklingsins og skólans í heild
Að einstaklingurinn hafi metnað til að stuðla að framþróun í starfi. Að þróun á faglegri starfsemi leikskólans sé stöðugt í gangi. 

Námsleiðir í Laufskálum

Stöðvavinna fer fram á öllum deildum leikskólans, í ólíku formi þó. Stöðvavinna eldri barna fer fram þrjá daga vikunar. Þessa þrjá daga velja börnin sig á stöðvar um kl 9:15 -11:00 og þær stöðvar sem í boði eru tengdar námsviðunum og áherslum leikskólans. Börnin fara á milli stöðva eftir áhuga og úthaldi en á hverri stöð er staðsettur kennari sem leiðir starfið. Á fyrirfram völdum stöðvum skrá þeir virkni þeirra barna sem koma á svæðið.

Stöðvavinna yngri barna fer einnig fram þrjá daga vikunar, á milli 9:00 og 9:40. Börnunum er skipt upp í hópa en hver kennari er með hverjum hóp í viku í senn. Eftiviður er breytilegur eftir dögum og áhugasviði barnanna.

Stöðvavinna yngri

Stöðvavinna fer fram á sitthvorri yngri deild leikskólans þrisvar í viku en vinnan hefst kl 09:00 og stendur til 09:40. Líkt og í stöðvavinnu eldri barna, hefur kennarinn eitt svæði til umráða (innan deildarinnar) en verkefnin á hverju svæði miðast að því að efla alhliða þroska barnanna. Þannig eflum við gróf- og fínhreyfingar, skynjun, sköpun og félagsþroska með því að bjóða upp á hvers konar verkefni háð getu og þroska barnahópsins hverju sinni. Hlutverk kennarans er að fanga áhuga barnanna og útfæra verkefnin út frá því sem þau vilja.

Markmiðið með stöðvavinnunni er að mæta námsviðum leikskólans og koma þannig til móts við áhersluþætti í leikskólauppeldi. Einnig er komið til móts við fræðilegan bakgrunn skólanámskrár og aukið á samhæfingu starfsfólks.

Stuðst er við myndræna skráningu þar sem full þátttaka kennara er grundvöllur þess að góð vinna skapist með börnunum. Markmið myndaskráningarinnar er að skrásetja þau ólíku verkefni sem boðið er upp á auk þess að fanga þroska barnanna með uppeldisfræðilegri skráningu í formi mynda.

Tenging við fræðilegan bakgrunn
Tenging við skapandi hlustun er að hlusta raunverulega á það sem barnið segir, veita því athygli og koma til móts við börnin eins og hægt er. Það er gert með því að gefa börnunum tækifæri á að hafa áhrif á hvaða verkefni eru unnin eða á hvað svæði þau fara. Unnið er í litlum hópum þannig að hægt sé að hlusta eftir því sem börnin hafa að segja.
Við leitumst við að hafa efniviðinn opinn og gefa börnum tækifæri á að endurskapa reynslu sína úr samfélaginu. Þegar börnin vinna með opinn efnivið fá þau tækifæri á að uppgötva hlutina á sinn hátt.

Stöðvavinna eldri deilda

Stöðvavinna fer fram á eldri deildum leikskólans þrisvar í viku en vinnan hefst klukkan 09:15 og stendur til 11:00. Hver kennari hefur eina stöð til umráða en verkefni innan hverrar stöðvar miðast, að hluta til, af áhugahvöt barnanna hverju sinni. Hlutverk kennarans er að vera til staðar, fanga áhuga barnanna og útfæra verkefni út frá honum sem henta getu og þroska.

Markmiðið með stöðvavinnunni er að mæta öllum námsviðum leikskólans og koma þannig til móts við áhersluþætti í leikskóla uppeldinu. Einnig er komið til móts við fræðilegan bakgrunn skólanámskrár og aukið á samhæfingu starfsfólks leikskólans.

Í hverjum stöðvavinnutíma eru sex stöðvar í boði. Kennarar raða sér niður á þessar stöðvar samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi sem miðar að því að allir kennarar verði með yfirumsjón á öllum stöðvum á einhverjum tíma yfir veturinn. Aukakennarar raða sér síðan á þær stöðvar sem eru vinsælar eða þar sem verkefnin krefjast aukinnar aðstoðar.  

Stöðvarnar sem eru til afnota í stöðvavinnu eru: Listasmiðja, Leiklist, Furulundur, Lerkilundur, Vísindi og Tónlist.

Yfir veturinn er stuðst við fjögur mismunandi þemu sem stýra vinnu á stöðvum.

Í stöðvavinnu ríkir svokallað flæði en börnin blandast þvert á deildar á stöðvar. Flæðið felur það í sér að börnin ráða ferðinni og er gefin sá kostur að flæða eða ferðast um á milli stöðva. Viðvera barnanna er skráð á hverri stöð sem og þátttaka þeirra.

Dæmi: Nonni kemur á einingakubbastöð. Kennarinn merkir við hann og skráir síðan hverskonar þátttöku Nonni sýndi á þeim tíma sem hann var á stöðinni. Hafi hann ekki sýnt neina þátttöku eða aðeins staldrað við í stuttan tíma skráir kennari 0 eða 1 við nafn hans. Hafi hann sýnt þátttöku að hluta, hvort sem hann var lengi af stað eða byrjaði og missti síðan áhugann, skráir kennari 2 eða 3. Hafi Nonni tekið þátt að fullu allan tíman sem hann dvaldi á stöðinni skráir kennari 4 við nafn hans.

Markmiðið með skráningunni er að fylgjast með því hvaða stöð hvert barn velur en einnig að sigta út þá einstaklinga sem festast illa í verkefnum og þurfa aðstoð við að kveikja áhugann. Í lok vetrar er þessum skráningarblöðum safnað saman og hver deild fer yfir virkni hvers barns fyrir sig. Þá er einnig skoðað hvaða stöðvar voru vinsælastar yfir veturinn og hvaða stöðvar þarf að styrkja til þess að þær veki aukinn áhuga barnanna.

Tenging við fræðilegan bakgrunn
Tenging við skapandi hlustun er að hlusta raunverulega á það sem barnið segir, veita því athygli og koma til móts við börn eins og hægt er. Það er gert með því að gefa börnum tækifæri á því að hafa áhrif á hvaða verkefni eru unnin eða á hvaða stöð þau fara. Við sköpun lýðræðislega hugsun með því að gefa börnunum val um hvaða stöð þau vilja vera á en þannig lærir barnið að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Ef þau vilja ekki taka þátt í verkefninu sem er á stöðinni þá hafa þau val um að aðlaga verkefnið að sinni áhugahvöt eða fara á aðra stöð. Þannig virðum við sjálfsákvörðunarrétt barnsins. Skipulagðar ferðir eru farnar út fyrir leikskólann til að auðga reynsluheim barna. Þar sem efniviðurinn er opinn gefst börnum tækifæri á að endurskapa reynslu sína úr samfélaginu og fá tækifæri til þess að túlka hlutina á sinn hátt. Stöðvarnar eru settar upp með það í huga að ýta undir að börnin uppgötvi hlutina með því að skynja, skoða og upplifa. Þau eru hvött til að leita að leiðum og lausnum til að komast að niðurstöðu. Við listsköpun er áhersla lögð á ferlið en ekki útkomuna, reynslu barna af mismunandi efnivið og að skapa umhverfi sem hvetur til tjáningar í mál og myndum.

Leikurinn

Mikilvægi leiksins

  • Í gegnum leik læra börn samskipti
  • Börn nota leik til að tjá tilfinningar sínar
  • Börn nota leik til að endurupplifa atvik sem þau þurfa að vinna úr eða skoða nánar.
  • Börn læra að deila með sér í gegnum leikinn

Söng-, samveru og vinastundir

Í leikskólanum er söngstund og samverustund einu sinni á dag.  Á föstudögum er vinastund þar sem allar deildar hittast í alrými og syngja saman.

Samskipti leik- og grunnskóla